Ný tækni þróuð með Sorpu

Ýmir Technologies eru nú komin vel á veg með þróun á búnaði sem ráðstafar lífrænum úrgangi með sjálfbærum hætti og á mun hagkvæmari hátt en áður hefur tíðkast. Mun búnaðurinn draga úr þörfinni á því að flytja úrgang um langan veg til endurvinnslu.

Nýverið gerðu Ýmir og Sorpa með sér nýjan samning um þróun á frekari leiðum til endurvinnslu á úrgangi.

„Þetta er spennandi og mikilvæg tilraun á nýjum, íslenskum búnaði. Við hjá SORPU viljum hvetja til nýsköpunar á sviði endurvinnslu og með þessari tilraun er verið að vinna með erfiðan, samsettan úrgang, en slíkan úrgang er oft erfitt að endurvinna á hagkvæman hátt. Þessi tilraun miðar að því að ná fram mikilvægum lífúrgangi, sem er mikilvæg auðlind og gott endurvinnsluefni, úr blönduðum úrgangi. Við bindum vonir við að verkefnið geti leyst ýmis vandamál sem við erum að kljást við,“ – segir Jón Viggó Gunnarsson forstjóri SORPU bs.

Límt, málað og/eða plasthúðað timbur er vandmeðfarinn úrgangur sem t.d. ódýr fjöldaframleidd húsgögn breytast á endanum í. Slíkt efni er á meðal erfiðustu úrgangsflokka sem úrvinnslustöðvar eins og Sorpa glíma við, þegar kemur að því að forðast urðun. ÝMIR er að þróa tækni til að sundra slíkum úrgangi með formeðhöndlun og veita þar með gagnlegum örverum mun greiðari aðgang að því að breyta honum í verðmæti á borð við t.d. lífgas eða iðnaðaralkóhól. Á síðasta ári gerði Sorpa samstarfssamning við Ými um að hefja ítarlega rannsókn á hagkvæmni þess að vinna úrganginn með þessum hætti. Er fyrsta áfanga þess nú lokið með smíði og uppsetningu tæknibúnaðar. Felst næsti áfangi í tilraunavinnslustöð fyrir torunna úrgangsstrauma sem rekin verður á athafnasvæði SORPU í Álfsnesi um nokkurra mánaða skeið.

Önnur dæmi um vandmeðfarna úrgangsflokka sem leitast er við að endurvinna eru einnota rakadrægar hreinlætisvörur, öðru nafni bleyjur. Hefur því búnaðurinn stundum verið kallaður „bleyjubaninn“, en slíkur úrgangur er mikið vandamál um allan heim. Bleyjufjallgarðar veraldar eru viðamiklir, t.d. um 10.000 tonn á ári á Reykjavíkursvæðinu einu, og hverfa þeir ekki þótt mokað sé yfir þá mold, heldur rotna og framleiða góðurhúsalofttegundir á borð við metan sem eru margfalt skaðlegri en koltvísýringur. Aðferð Ýmis gengur út á það að vinna á úrganginum með þrýstingi, gufu og hita. Með því að létta þrýstingnum skyndilega af þegar gufan hefur þrengt sér inn í lífræna hluta efnisins, springur tormeðhöndlanlegi hluti efnisins í miklum minni sameindir á borð við sterkju og sykrur sem auðvelt er að breyta í verðmæti með lífrænni vinnslu.

Ýmir Technologies hannar og smíðar vélasamstæður til forvinnslu á sorpi til að greiða fyrir endurvinnslu.

„Við leggjum upp með að þróa og framleiða vélar sem sorpráðstöfunarstöðvar og úrgangshafar heims geta notað til að ná meiri árangri í endurvinnslu og verða í síauknum mæli að endurvinnslustöðvum. Við stefnum á að verða fyrir endurvinnslu lífræns efnis það sem Marel tókst að verða fyrir frumvinnslu matvæla: leiðandi á sínu sviði í heiminum! Möguleikarnir eru ótæmandi, enda er mikil vakning í heiminum á því sviði hvernig nýta má betur lífrænt efni og minnka sóun. Það er mikill kostur við okkar aðstæður hér á landi að Sorpa hefur mikinn metnað til að greiða götu hringrásarhagkerfisins, ekki síst miðað við ekki stærra byggðasamlag. Við eigum þess því kost að ná frumkvæði í því að þróa aðferðir sem henta á minni skala vegna samstarfsins við SORPU. Ráðstöfun úrgangs er í eðli sínu málefni sem fyrst og fremst varðar nærumhverfið. Því er í flestum sveitarfélögum heims að finna stöðvar á borð við SORPU, sem margar hverjar eru af svipaðri stærð, þó þessi sveitarfélög tilheyri stærri þjóðríkjum. Þrátt fyrir þetta virðist á mörgum sviðum ekki vera mikil áhersla á að þróa búnað sem hentar þessum stöðvum. Aðeins í Evrópu eru á að giska 2.000 slíkar stöðvar, þannig að kaupendahópurinn fyrir okkar tæknibúnað getur orðið stór. Því til viðbótar eru gætu mörg iðnfyrirtæki náð meiri árangri og lagað sitt umhverfisspor með að endurvinna sjálf sinn helsta úrgang. Þetta á við um laxeldi svo dæmi sé tekið, þar sem oft fellur til mikið magn af sjálfdauðum laxi sem ekki nýtist til fóðurframleiðslu. Slík fyrirtæki gætu nýtt lýsið úr laxinum til að koma í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti á þau fjölmörg skip sem þau reka. Annað dæmi gæti verið sk. bleikileir, sem er fituríkur úrgangur frá fituhreinsun í iðnaði. Honum er nú fargað með skelfilegu umhverfisspori í stað þess að hreinsa leirinn og endurnýta hann ásamt olíunni sem verður eftir í honum, t.d. til lífdísilgerðar. Samstarf okkar við Sorpu er ómetanlegt og mun að öllum líkindum ekki bara þjóna þörfum Sorpu og nærsamfélagsins hér heima, heldur hjálpa öllum heiminum í þessari stóru áskorun sem í endurvinnslu á torveldum lífúrgangi felst,“ segir Sigurður Ingólfsson framkv.stj. Ýmir Technologies um verkefnið og fyrirtækið.

Afurðir margra ára rannsókna og tækniþróunar að koma á markað.

„Nú í vor erum við að hefja smíði á lífdísilverksmiðju til að vinna eldsneyti á neytendamarkað úr fituríkum sláturúrgangi til endurvinnslu, en áður höfðum við þróað forvinnsluhlutann sem býr til fituhráefnið úr úrganginum. Var það gert í sambærilegu samstarfi við SORPU, eins og áður er getið. Sláturúrganginum verður með tilkomu þessa búnaðar þá að miklu leyti breytt í sjálfbært lífdísileldsneyti. Framleiðslutækni ÝMIS er ný af nálinni og getur innan fárra ára valdið byltingu í þessari atvinnugrein um allan heim ef vel tekst til. Skaðleg urðun á þessum úrgangi getur með þessu verkefni heyrt sögunni til. Hvað bleyjubanann varðar væntum við þess að niðurstöður rannsóknarverkefnis okkar í samstarfi við SORPU verði þess eðlis að eftir 2–3 ár verði búnaðurinn tilbúinn til sölu. Gangi það eftir, er von á mikilli eftirspurn eftir þeirri tækni um allan heim,“ segir Sigurður að lokum